Fótbolti - 4.flokkur kvenna í úrslit Íslandsmótsins

22.ágú.2005  11:44

4.flokkur kvenna hefur staðið sig frábærlega í fótboltanum nú í sumar. Þær unnu í A og B liðum á Símamóti Breiðabliks og hafa nú tryggt sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins. Stelpurnar spila í úrslitunum næstu helgi og þá geta þær tryggt sér sæti í sjálfum úrslitaleiknum sem yrði frábær árangur.

Stelpurnar enduðu í 2.sæti A-riðils á eftir Breiðablik en þrjú efstu liðin komast í úrslit. ÍBV og Breiðablik hafa borið af í sumar og m.a. vann ÍBV liði FH 11-0 en FH endaði í 3.sæti riðilsins. Markatala ÍBV er aldeilis glæsileg en þær hafa skorað hvorki fleiri né færri en 64 mörk í 9 leikjum sem gerir rúmlega 7 mörk að meðaltali í leik. Auk þess hafa þær eingöngu fengið á sig 4 mörk í þessum 9 leikjum. Þá er Kristín Erna Sigurlásdóttir er markahæsti leikmaður riðilsins með 17 mörk en Eva María Káradóttir er þriðja markahæst með 15 mörk.

Úrslitariðillinn fer fram næstu helgi en þá mæta stelpurnar liðum Þróttar Reykjavík og Þór frá Akureyri. Sigurvegari þessa riðils mætir svo sigurvegara hins úrslitariðilsins í hreinum úrslitaleik umg titilinn, en sá leikur fer fram á ÍR-vellinum föstudaginn 2.september. Það eru því spennandi tímar framundan hjá 4.flokki kvenna ÍBV og verður gaman að sjá hvort þær ná að koma með titilinn heim til Eyja.