Sigríður Lára Garðarsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild ÍBV en hún mun koma inn í þjálfarateymi meistaraflokks kvenna hjá ÍBV en þar eru fyrir Mikkel Hasling, markmannsþjálfari og svo Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari. Sísí verður einnig þjálfari 2. flokks kvenna.
Sísí þekkja flestir Eyjamenn en hún á frábæran feril að baki sem leikmaður þar sem hún hefur leikið með ÍBV, Val, FH og Lilleström ásamt því að eiga að baki 20 A-landsleiki. Samtals á Sigríður 30 landsleiki fyrir yngri landslið ÍBV og 300 KSÍ leiki þar sem hún skoraði 55 mörk, langflestir leikirnir fyrir ÍBV en hún lék fyrsta leikinn sinn í meistaraflokki 15 ára, þann 24. júlí 2009. Nokkrum dögum síðar skoraði hún fyrsta markið sitt í meistaraflokki en fyrsta A-landsleikinn spilaði hún 2016. Árið 2017 fór Sísí fyrir liði ÍBV sem varð bikarmeistari og skoraði hún sigurmark liðsins í úrslitaleiknum gegn Stjörnunni.
Sísí hefur komið að þjálfun hjá ÍBV, við góðan orðstír, samhliða sínum leikmannaferli þar sem hún þjálfaði yngri flokkana kvenna megin, en hún færir sig nú inn í þjálfun eldri flokkanna.
„Hjá ÍBV ríkir gríðarlega mikil ánægja að Sísí hafi ákveðið að koma inn í þjálfarateymið hjá okkur. Hún verður bæði þjálfari hjá meistaraflokki kvenna og 2. flokki kvenna næstu tvö árin. Sísí á eftir að miðla reynslu sinni til okkar unga leikmannahóps og hjálpa þeim að verða betri leikmenn,“ sagði Magnús Sigurðsson, í knattspyrnuráði.
Við óskum þess að samstarf félagsins við Sísí verði áfram jafn farsælt og það hefur verið er hún var leikmaður liðsins.