Fótbolti - Svar við grein Gunnlaugs Jónssonar þjálfara Selfoss

30.nóv.2008  15:54
Ég tel mig knúinn að svara þeirri gagnrýni sem kom á ÍBV í grein Gunnlaugs Jónssonar þjálfara Selfoss framhaldi af félagsskiptum Viðars Arnar Kjartanssonar í ÍBV. Þar sem ég sá að mestu leyti um samskipti við Leikmanninn og stjórn Selfoss vil ég útskýra og svara nokkrum ásökunum úr grein Gunnlaugs. Gunnlaugur segir að þeir vissu að Viðar kominn í viðræður við Eyjamenn fljótlega eftir tímabil. Af hverju vissu þeir það? Svarið við því er einfalt. Fram og Fjölnir tilkynntu 21 október að félögin myndu ekki sameinast. Þar með var ljóst þann dag að Selfoss myndi ekki leika í efstu deild 2009. Eftir að þetta var ljóst ákváðum við að kanna áhuga Viðars á að leika með ÍBV. Ég hafði samband við föður Viðars til að athuga hvort áhugi væri fyrir hendi. Ég tjáði honum (föðurnum) að við hefðum áhuga að fá hann til Eyja. Ákváðum við í sameiningu að hann tilkynnti stjórnarmanni í knattspyrnudeild það. Reyndar voru önnur lið þá þegar búnir að spyrjast fyrir um hann. Þessar viðræður voru því á vitorði Selfyssinga frá upphafi. Frá því þetta gerðist talaði ég amk þrisvar sinnum við Guðjón Ægir Sigurjónsson stjórnarmann knattspyrnudeildar. Gunnlaugur er ósáttur við að Eyjamenn hafi tilkynnt undirskrift Viðars án þeirra vitundar. En sannleikurinn er sá að ég hringdi kvöldið áður en þetta var birt í formann knattspyrnudeildar Selfoss Óskar Sigurðsson og bað um leyfi að kynna þetta samkomulag. Við hefðum aldrei birt þetta nema með hans leyfi. Hann vildi ráðfæra sig við stjórnarmeðlimi og hringdi til baka 30 mínútum síðar og gaf mér leyfi að tilkynna félagsskiptin. Ég get því ekki skilið hvernig þetta hafi komið í opna skjöldu. Gunnlaugur segir einnig: “Við höfum vissu fyrir að það sem þeir buðu honum gætum við ekki jafnað og samkvæmt síðustu fréttum frá Eyjum er staðan ekki glæsileg þar svo ég set spurningamerki við hvort þeir hafi efni á að bjóða betur en uppeldisklúbburinn hans." Ef Gunnlaugur hefur séð samninginn þá hefði hann aldrei sagt þetta því Selfoss gæti án vafa gert mun betur fjárhagslega. En strákurinn vildi spila í úrvalsdeild og því miður þá getur Selfoss ekki boðið það í ár. Vonandi á næsta ári. Ég veit ekki betur en staða ÍBV sé nokkuð góð um þessar mundir. A.m.k getum við staðið við allar skuldbindingar síðasta árs. Vissulega verður félagið að skera niður kostnað næsta tímabil eins og allir aðrir í þjóðfélaginu. Gunnlaugur hefur sennilega einhverja upplýsingar um fjárhagsstöðu ÍBV sem ég hef ekki amk hefur hann þörf að gera lítið úr félaginu. ÍBV og Selfoss hafa ætíð átt gott samstarf og það er okkar von að það samstarf haldi áfram. Margir leikmenn ÍBV hafa leikið með Selfoss í gegnum tíðina og vonandi skemmir það ekki þessi góðu samskipti að leikmaður Selfoss leiki með ÍBV. Það er alltaf sárt að sjá eftir góðum leikmönnum og góðir leikmenn verða alltaf eftirsóttir. ÍBV hefur séð á eftir góðum leikmönnum í gegnum tíðina og við skiljum svekkelsi Gunnlaugs. Það vita bæði Óskar og Guðjón í stjórn Selfoss að ÍBV hefur alltaf ætlað sér að gera betur við Selfoss í þessum félagsskiptum en okkur ber skylda til. Við höfum komið okkar tillögum á framfæri í þeim efnum. Mér finnst það sýna heiðarleika og samstarfsvilja. Jafnvel ákveðinn klassa. Ég veit ekki til þess að mörg félög bjóði meira en þeim ber skylda til. Að endingu vil ég óska Selfyssingum velgengni á sumri komanda og að þeir klári það verk sem þeir voru svo nálægt síðasta tímabil. Þeir léku skemmtilegan fótbolta og voru án nokkurs vafa með skemmtilegastu stuðningsmennina í deildinni sem studdu liðið sitt til enda sama hver staðan var. Gunnlaugi óska ég velgengni á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari. Virðingarfyllst Heimir Hallgrímsson