Handbolti - Magnús Stefánsson ráðinn aðalþjálfari meistaraflokks karla

28.feb.2023  21:22
Handknattleiksdeild ÍBV hefur ráðið Magnús Stefánsson í starf aðalþjálfara meistaraflokks karla til næstu tveggja ára. Magnús, sem nú sinnir starfi aðstoðarþjálfara liðsins, tekur við starfinu eftir yfirstandandi tímabil.
Magnús lék á sínum ferli með KA, síðar Akureyri og gekk svo til liðs við Fram þar sem hann lék í nokkur ár.
Árið 2011 fluttu þau hjúin, Magnús og Ester Óskarsdóttir svo til Eyja og skrifaði Magnús undir samning hjá ÍBV.
Á ferli sínum sem leikmaður hjá ÍBV vann Maggi 8 titla, en það voru 1.deildar titilinn 2013, Íslandsmeistaratitill 2014, bikarmeistara titill 2015, þrennan 2018, meistarar meistaranna 2019 og svo loks bikarmeistaratitill vorið 2020.
Magnús hefur starfað við þjálfun frá árinu 2009, þegar hann hóf að þjálfa yngri flokka hjá Fram. Eftir komuna til Eyja 2011 hefur hann komið að þjálfun hinna ýmsu flokka, jafnt karla og kvenna en nú síðustu ár þjálfað 3.flokk karla, verið í U-liðs þjálfarateymi og er í dag aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla.
Mikil ánægja er hjá félaginu með ráðningu Magnúsar í starfið og hlökkum við til áframhaldandi samstarfs í þessu nýja verkefni.
Áfram ÍBV
Alltaf, alls staðar!