Fótbolti - 10 ára hefð breytt: Nýtt inngöngustef á Hásteinsvelli

05.júl.2007  15:14
Sá merkisatburður átti sér stað fyrir síðasta heimaleik ÍBV gegn Njarðvík að 10 ára hefð var snúið. Eins og flestum Eyjamönnum ætti að vera orðið kunnugt um, þá hefur Geir "Vallarþulur" Reynisson spilað Star Wars stefið þegar leikmenn ganga inn á völlinn, í 10 ár samfleytt. Varð því uppi fótur og fit við hljóðkerfið á síðasta leik þegar til okkar gekk Andri Húgó Runólfsson með disk og sagðist hafa nýtt stef til að spila fyrir leiki. Ekki voru allir sáttir við að breyta þessu eðalstefi en þegar því var rennt í gegn kom í ljós að þetta var annað Star Wars stef, aðeins drungalegra enda "Vondukallastefið" eða "Svarthöfðastefið" úr myndunum og kom það alveg ljómandi vel út. Ákveðið hefur verið að þetta verði hið nýja inngöngustef fyrir leiki ÍBV á Hásteinsvelli, þangað til menn fá leið á því, og á Andri Húgó miklar þakkir skildar fyrir þessa breytingatillögu.

En hvers vegna datt Andra þetta í hug? ,,Ég og Beggi vinur minn höfum mætt á alla leiki sem við höfum komist á á Hásteinsvelli s.l. 12-13 ár. Á nær öllum þeim tíma hefur hetjustefið úr Star Wars myndunum fengið að óma undir þegar leikmenn hafa gengið inná völlinn. Okkur fannst tími til kominn að breyta aðeins til og fannst alveg tilvalið að breyta þessu yfir í andstæðuna, sem sagt "vondukallastefið" úr Star Wars. Við lögðum hugmyndina fyrir Geir Reynis og hann tók vel í þetta. Við vorum komnir með svolítið leið á hetjuþemanu, það er í sjálfu sér fyrirtaksstef sem slíkt, uppörvandi og hvetjandi. En að hlusta á sama þemað við sömu athöfnina í rúman áratug getur orðið svolítið lýjandi. Auk þess er Svarthöfðaþemað mikið ógnvænlegra og það rekur meiri skelfingu í andstæðinginn."

ÍBV náði þó einungis jafntefli gegn Njarðvík í fyrsta leiknum sem stefið var spilað. Það hefur þá ekki alveg virkað svona í fyrstu atrennu að auka á skelfingu andstæðingsins að vera að koma að spila í ljónagryfjunni, Hásteinsvelli?
,,ÍBV gerði jafntefli í fyrstu þremur leikjunum sínum í deildinni í sumar, meðan hetjuþemað var enn við lýði svo ég hef ekki nokkra trú á þetta hafi nokkuð með það að gera. Það þarf kannski nokkra leiki til að slípa þetta aðeins til eins og með allt annað. Á endanum kemur þetta til með að verða liðinu til góðs."

Eyjamenn eiga gríðarlega mikilvægan leik gegn Þrótti á laugardaginn. Hvernig mun sá leikur fara? ,,Ég held að ef stefið fái að hljóma nógu andskoti hátt þá ættu Þróttarar að skjálfa á beinunum í heilar 90 mínútur. Þeir þurfa sennilega að fá áfallahjálp í hálfleik. Annars spái ég 2-0 sigri Eyjamanna og það verða Atli og Andy sem skora mörkin sitt hvoru megin við hálfleikinn," sagði Andri að lokum sigurreifur og setti upp Star Wars grímuna í tilefni dagsins.

Hægt er að ná í gamla inngöngustefið (hetjustefið) úr Star Wars með því að smella HÉR

Hægt er að ná í nýja inngöngustefið (Svarthöfðastefið) úr Star Wars með því að smella HÉR