Fótbolti - 1 deild: Fyrsta tapið í sumar staðreynd

04.júl.2007  09:01

Gestur Magnússon skrifar:


Eyjamenn byrjuðu leikinn með krafti og strax á 2. mín. er Atli að sleppa í gegn, varnarmaður Grindavíkur hitti ekki boltann og tók Atla niður, en dómari leiksins hafði ekki þor í sér til að dæma víti. Eyjamenn drógu sig meira til baka þegar leið á hálfleikinn og lokuðu vel á Grindvíkinga sem voru ekki að fá nein færi, þar til á 45 mín. að Grindavík skoraði eftir slæm varnarmistök, virkilega svekkjandi þar sem að liðið var að spila ágætlega og Grindavík var ekki að fá nein færi.

Í seinni hálfleik færði liðið sig framar á völlinn og leikurinn opnaðist aðeins, en aftur gerðu menn sig seka um mistök á 58 mín. og liðinu var refsað með marki, staðan orðin 0-2 sem gaf ekki rétta mynd af þróun leiksins. Á 73 mín. minnkaði Ingi Rafn muninn, en hann var þá nýkominn inn á, með laglegu skoti yfir markvörð Grindvíkinga frá vítateigshorni. Þarna bjóst maður við því að Eyjamenn myndum jafna leikinn, þar sem þeir voru farnir að þjarma verulega að Grindvíkingum en þá komu enn ein mistökinn í vörninni á 83 mín., þegar menn gleymdu sér og sóknarmaður Grindvíkinga slapp einn í gegn og skoraði. Eyjamenn reyndu allt sem þeir gátu til að minnka og átti Andri dauðafæri á lokamín. sem markvörður Grindavíkur varði.

Lokastaðan 3-1 sem verða að teljast sanngjörn úrslit þar sem liðið gaf eiginlega öll þrjú mörkin frekar ódýrt. Hraðinn var mikill í leiknum og menn fengu ekki mikinn tíma á boltann. Líklegast einn sá leikur í 1. deildinni í sumar sem hefur haft mesta tempóið, slíkur var hraðinn. Það býr mun meira í liðinu en það sýndi í þessum leik, en til þess að hala inni stigum þarf liðið að skapa sér fleiri færi og nýta þau.

Dómari leiksins: Gylfi Orrason (einkunn 3) Virtist ekki hafa áhuga eða metnað til að stjórna leiknum. Hafði ekki þor í sér til að dæma víti í byrjun leiks. Gerði einnig önnur mistök og bara brosti út í annað.

Lið ÍBV í leiknum: Hrafn- Pétur hægri bak, Bjarni Hólm (Jonah) og Palli miðverðir, Matt vinstri bak, Andrew (Ingi Rafn), Andri og Yngvi á miðjunni, Bjarni Rúnar hægri kantur, Anton(Stefán Hauks) vinstri kantur, Atli frammi.