Fótbolti - VISA-bikar kvenna: Stelpurnar stóðu sig vel þrátt fyrir tap

13.jún.2007  18:05
Eyjastelpur spiluðu í gær gegn Aftureldinu í Visa-bikar kvenna. Heimastúlkur tefldu fram kornungu liði en liðið var mestmegnis skipað leikmönnum úr öðrum og þriðja flokki félagsins. Yngsta stúlkan sem tók þátt í leiknum var Sóley Guðmundsdóttir sem kemur alla leið neðan úr fjórða flokki og er því einungis 14 ára gömul. Hún byrjaði leikinn, spilaði sem framherji og stóð sig gríðarlega vel eins og allar stelpurnar í gær. Frábær barátta var í liðinu og gott spil á köflum og greinilegt að þær báru enga virðingu fyrir mun eldri stelpum. Því miður fáum við ekki að sjá fleiri meistaraflokksleiki í sumar hjá stelpunum en spennandi verður að sjá ungt og efnilegt Eyjalið spreyta sig á næsta sumri.

Leikurinn endaði 0-2 fyrir Aftureldingu en flestir bjuggust við mun stærra tapi. Aðeins einn leikmaður á meistaraflokksaldri spilaði leikinn, Karítas Þórarinsdóttir, og var að öðrum ólöstuðum maður leiksins. Hún bjargaði oft stórglæsilega og greinilegt að þar er á ferð góður markmaður, rétt eins og hún er sem útileikmaður. Því miður fyrir hana hefur hún átt í miklum meiðslum í gegnum tíðina sem hafa komið í veg fyrir hennar feril sem knattspyrnumanns hingað til. Í gær sannaði hún enn og aftur hverslags íþróttamaður hún er þrátt fyrir alla erfiðleikana.

Karítas sagði í samtali við ibv.is að hún hefði verið mjög ánægð með leikinn og þetta hefði bara verið mjög gott. ,,Ég var mjög ánægð með hvernig stelpurnar spiluðu í leiknum, sérstaklega í seinni hálfleik því þá var miklu minna stress í stelpunum og þær voru mjög yfirvegaðar. Þær höfðu alla burði til að skora og minnka muninn en því miður tókst það ekki. Það sást auðvitað hvað það vantaði reynsluna í liðið, en það kemur með árunum."

Karí, eins og hún er oft kölluð, sagðist vera ágætlega vön að spila í marki, en þó helst í handboltanum. ,,Ég verið svolítið í marki en aðallega í handboltanum og maður getur nýtt það að einhverju leyti í fótboltanum þrátt fyrir að ég sé ekki vön að vera í marki þar, hef spilað einn og einn leik í marki í fótbolta. Ég veit ekki hvað þetta er með markmannshæfileikana, þetta er bara eitthvað meðfætt held ég. Ég hef þó ekki mikinn áhuga á að halda áfram í marki, hugurinn stefnir út á völlinn, það er miklu skemmtilegra."

Mikil meiðsli hafa hrjáð Karí í gegnum tíðina en hvernig er hún í dag? ,,Ég er betri nú í sumar en oft áður. Ég er búin að vera skynsöm, tók heilt ár í frí í fyrra og byrjaði ekki að æfa aftur fyrr en við fórum á grasið og það hefur hjálpað mér mjög. Ég er búin að skipuleggja mig líka betur og bara skynsamari en áður og þetta hefur allt hjálpað. Þetta er því miður eini leikurinn í sumar sem ég fæ að spila því það kemur ekki til greina að fara í eitthvað annað lið en ÍBV. Ég ætla bara að stefna á næsta sumar með ÍBV en við ætlum okkur svo sannarlega að vera með lið næsta sumar og gera góða hluti."

En á hvaða stöðu stefnir hún þá næsta sumar ef ekki markið? ,,Ég hef eiginlega spilað allstaðar í gegnum tíðina, alveg frá markmanni til sóknarmanns. Ætli mér finnist ekki skemmtilegast að vera frammi og stefni bara á að vera framherji næsta sumar hjá ÍBV, maður verður alltaf að hafa einhver markmið," sagði Karítas að endingu, hress að vanda.