Fótbolti - Samningar undirritaðir og tveir nýir leikmenn

08.feb.2021  08:50

Margir ungir leikmenn endurnýjuðu samninga sína við ÍBV í dag en þá skrifuðu einnig tveir nýir leikmenn undir samninga.

Nýju leikmennirnir koma báðar frá Lettlandi en þær heita Viktorija Zaičikova og Lana Osinina. Þær koma báðar frá Riga Football School sem vann lettnestu úrvalsdeildina örugglega á síðustu leiktíð. Þar áttu þær báðar mjög gott tímabil en Viktorija skoraði 24 mörk í 11 leikjum og Lana skoraði 10 mörk í 10 leikjum.

Viktorija er 20 ára gömul og er framherji sem getur leikið í nokkrum stöðum framarlega á vellinum. Lana er 18 ára gömul og spilar einnig framarlega á vellinum. Hjá ÍBV hitta þær fyrir Olgu Sevcovu og Elizu Spruntule sem koma einnig frá Lettlandi.

Þá skrifuðu margir aðrir leikmenn undir samninga við liðið en þær Jóhanna Helga Sigurðardóttir, Helena Jónsdóttir, Þóra Björg Stefánsdóttir, Thelma Sól Óðinsdóttir, Sunna Einarsdóttir, Berta Sigursteinsdóttir og Inga Dan Ingadóttir skrifuðu allar undir samninga í dag.

Jóhanna Helga er 22 ára leikmaður sem lék upp alla yngri flokka félagsins en tók sér pásu frá fótbolta þangað til í fyrra þar sem hún lék með 2. flokki félagsins.

Helena er 16 ára leikmaður sem lék sína fyrstu leiki með meistaraflokki félagsins fyrir tveimur árum en hún hefur nú leikið 27 leiki í Pepsi Max deildinni. Þóra Björg er einnig 16 ára en hún lék eins og Helena sína fyrstu meistaraflokksleiki árið 2019 og hefur nú leikið 23 deildarleiki.

Thelma Sól sem er 16 ára lék sinn fyrsta leik árið 2018 og hefur nú leikið átta deildarleiki fyrir félagið. Sunna er 16 ára líkt og hinar stelpurnar en hún lék sinn fyrsta deildarleik með meistaraflokki á síðustu leiktíð.

Berta og Inga Dan eru síðan 15 ára leikmenn sem hafa nú þegar leikið sína fyrstu meistaraflokksleiki. Berta lék átta leiki á síðustu leiktíð og Inga Dan einn leik. Allir þessir leikmenn eru einnig mikilvægir hlekkir í 2. flokki félagsins.