Þrettándablað ÍBV er komið út

04.jan.2013  08:13

-Brot úr viðtali við Hermann Hreiðarsson

Þrettándablað ÍBV er komið út og hefur verið dreift inná hvert heimili í Eyjum. Í blaðinu er að finna grein eftir sr. Ólaf Jóhann Borgþórsson og annál ársins 2012 hjá ÍBV-íþróttafélagi sem Tryggvi Már Sæmundsson, framkvæmdastjóri félagsins, tók saman. Þá er Hermann Hreiðarsson, nýráðinn þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu, tekinn tali. Í viðtalinu er Hermann m.a. spurður út í hugsanlega komu þekktra knattspyrnukappa frá Englandi í ÍBV. Hér að neðan er hægt að lesa brot úr viðtalinu við Hermann.

Hin eina sanna Þrettándagleði ÍBV hefst kl. 19.00 föstudaginn 4. janúar. Að venju verður boðið uppá flugeldasýningu, blysför og álfabrennu á Malarvellinum. Jólasveinarnir, tröllin og hinar ýmsu furðuverur láta síðan auðvitað sjá sig. Nánari dagskrá Þrettándahelgarinnar í Eyjum er að finna í Þrettándablaðinu.
Eru Eyjamenn hvattir til að taka þátt í Þrettándagleðinni og lesa Þrettándablaðið!

Ef maður spyr ekki – þá veit maður ekki

- segir Hermann Hreiðarsson þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu

Í vetur hafa verið sögur á kreiki að þekktir knattspyrnukappar frá Englandi séu á leið í ÍBV. Hermann segir að ekki sé mikið að marka þær sögur, en hitt er annað mál að hann sé vel tengdur í Englandi, enda leikið þar sem atvinnumaður í 15 ár. „Þetta eru náttúrulega sögusagnir eins og er, en ég þekki auðvitað fullt af mönnum og ég heyri í þeim öðru hvoru. Ef eitthvað kæmi upp, sem er mjög ólíklegt, þá er allt í lagi að bulla aðeins í þeim og sjá hvað þeir eru að hugsa og gera þessa dagana. Ef maður gæti útvegað þeim húsnæði og mat þá er aldrei að vita,“ segir hann kankvís. „Svo er þetta auðvitað allt undir því komið hvað þeir eru að gera og hvort þeir hafa einhvern áhuga á að koma til Íslands. Eins og ég segi þá er það ólíklegt, en ef maður spyr ekki þá veit maður ekki. Það er aldrei að vita nema ég heyri í þeim þegar líða fer á vorið,“ segir Hermann.

Viðtalið í heild sinni er að finna í Þrettándablaði ÍBV.