Fótbolti - Arnar Breki framlengir til þriggja ára

02.des.2025  10:00

Eyjamaðurinn Arnar Breki Gunnarsson hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild ÍBV um þrjú ár. Arnar er 23 ára sóknarmaður sem hefur leikið í Vestmannaeyjum allan sinn feril, bæði með ÍBV og KFS.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur þessi frábæri og duglegi leikmaður leikið 140 leiki fyrir ÍBV og KFS en tæplega helmingur þeirra hefur komið í Bestu deildinni. Hann á að baki einn leik fyrir U21 árs landslið Íslands. 

Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá Arnari síðustu ár en þegar hann hefur haldist heill hefur hann leikið frábærlega og verið lykilmaður í liði ÍBV.

Knattspyrnuráð fagnar því að Arnar hafi ákveðið að verja næstu árum hjá ÍBV og bindur ráðið vonir við að Arnar geti hjálpað liðinu að ná markmiðum sínum á næstu árum.