Fótbolti - Þorlákur Breki Baxter til ÍBV á láni

21.feb.2025  20:00

Knattspyrnumaðurinn Þorlákur Breki Baxter hefur gengið til liðs við ÍBV á láni frá Stjörnunni en hann kom til Stjörnunnar frá ítalska liðinu Lecce fyrir tímabilið 2024. Hann kemur til með að leika með ÍBV til loka tímabilsins en hann ólst upp hjá Hetti og skipti yfir í Selfoss þegar hann var 15 ára.

Breki, eins og hann er kallaður, er á 20. aldursári og hefur leikið 65 leiki í deildarkeppni á Íslandi, flesta leikina eða rétt tæpan helming í Lengjudeildinni. Hann á fimm leiki með yngri landsliðum Íslands og hafði Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, þetta um hann að segja.

„Ég hef fylgst vel með framgangi Breka undanfarin ár, bæði með Selfossi og yngri landsliðum Íslands og var því mjög einbeittur á að fá hann til okkar þegar okkur bauðst hann á lán, Breki er áræðinn og beinskettur sóknarmaður með mikinn vilja til þess að bæta sig sem leikmaður.“

Knattspyrnuráð ÍBV býður Breka velkominn til félagsins og hlakkar til samstarfsins.