Fótbolti - Avery Vander Ven til ÍBV

23.jan.2025  12:40

Bandaríska knattspyrnukonan Avery Vander Ven hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild ÍBV og kemur til með að leika með liðinu í Lengjudeild kvenna í sumar. Hún er 22 ára og hefur leikið í bandaríska háskólaboltanum síðustu ár, bæði hjá Colorado State Rams og einnig hjá Texas Longhorns.

Avery lék í frábærri vörn hjá Colorado State sem setti nokkur met, meðal annars hélt liðið hreinu 10 sinnum á tímabilinu 2023 sem er met hjá skólanum. Hún lék hverja einustu mínútu í öllum 22 leikjum liðsins árið 2023 og einnig í öllum 21 leikjum liðsins árið 2024, þar sem liðið hélt hreinu 9 sinnum.

Ljóst er að hún er traustur varnarmaður og hafði Jón Óli, þjálfari liðsins, þetta um Avery að segja.

„Hún er hávaxin og er líkamlega sterkur varnarmaður sem býr yfir góðri tækni og góðum taktískum skilningi. Gott auga fyrir samleik og getur leyst fleiri stöður á vellinum.“

Knattspyrnuráð býður Avery velkomna til ÍBV.