Alex Freyr Hilmarsson, fyrirliði ÍBV, hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild félagsins um þrjú ár. Alex Freyr lék í 17 deildarleikjum er ÍBV varð Lengjudeildarmeistari í sumar.
Alex er 31 árs miðjumaður sem hefur fest rætur í Vestmannaeyjum og er þar ásamt fjölskyldu sinni.
Á þeim þremur leiktíðum sem Alex hefur leikið í Vestmannaeyjum hefur hann spilað 66 deildarleiki og skorað í þeim átta mörk. Hann kom til félagsins frá KR eftir að hafa leikið með Kórdrengjum á láni í Lengjudeildinni 2021. Á sínum ferli hefur hann leikið með Sindra, Grindavík og Víkingi Reykjavík auk þeirra liða sem nefnd eru að ofan.
Allir hjá ÍBV eru ánægðir með að Alex Freyr verði áfram og vonast til að hann geti hjálpað liðinu að ná sínum markmiðum á næstu þremur árum.