Fótbolti - Stelpurnar með frábæran sigur í lokaleik

01.okt.2022  18:50

Stelpurnar okkar í meistaraflokki kvenna unnu frábæran 3:0 sigur á Aftureldingu er liðin mættust í dag í lokaleik Bestu deildar kvenna. Leikurinn var leikinn á Hásteinsvelli og voru það þær Olga Sevcova og Ameera Hussen sem skoruðu mörk ÍBV.

Leikurinn fór rólega af stað en ÍBV vann sig fljótt og vel inn í leikinn og kom fyrsta markið eftir 12. mínútna leik þar sem Olga Sevcova kláraði vel af slánni og inn eftir sendingu frá Ameeru Hussen.

ÍBV var með öll völd á vellinum í fyrri hálfleik en liðið lék undan léttum vindi og lítilli rigningu á köflum. Annað mark ÍBV kom rétt áður en flautað var til hálfleiks, þá náði Ameera Hussen að tækla boltann inn áður en leikmanni Aftureldingar tókst að hreinsa burt. 

Eftir fimmtán mínútur í síðari hálfleik átti Ameera frábæran sprett upp völlinn og átti vel tímasetta sendingu á Olgu sem var sloppin í gegn og kláraði færið sitt frábærlega í stöng og inn. 

Eftir að ÍBV komst þremur mörkum yfir þá gerði liðið vel og hefðu mörkin getað orðið fleiri, vörnin hélt vel og náði liðið að halda hreinu. 

Þar sem önnur úrslit dagsins voru ekki hagstæð þá endaði liðið í 6. sæti deildarinnar en með hagstæðum úrslitum hefði 4. sætið geta orðið niðurstaðan. Liðið endaði með 29 stig, sem er sami stigafjöldi og Selfyssingar í 5. sæti deildarinnar.