ÍBV Fyrirmyndarfélag ÍSÍ

11.apr.2022  10:21

ÍBV Íþróttafélag fékk endurnýjun viðurkenningar félagsins

Á myndinni frá vinstri eru Elías Atlason ÍSÍ, Þór Ísfeld Vilhjálmsson formaður ÍBV Íþróttafélags, Daníel Geir Moritz formaður knattspyrnudeildar og Vilmar Þór Bjarnason framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar. // Myndina tók Sigfús Gunnar Guðmundsson.

ÍBV Íþróttafélag fékk endurnýjun viðurkenningar félagsins sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á hátíðlegri athöfn föstudaginn 8. apríl þegar nýjir búningsklefar félagsins við Hásteinsvöll voru formlega teknir í notkun. Báðar deildir félagsins, knattspyrnudeild og handknattleiksdeild fengu viðurkenningu auk aðalstjórnar. Það var Elías Atlason verkefnastjóri hjá ÍSÍ sem afhenti forystufólki félagsins viðurkenningarnar að viðstöddu fjölmenni. 

"Það er okkur hjá ÍBV Íþróttafélagi mikið ánæguefni að hafa endurnýjað viðurkenninguna sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ í annað sinn. Að vera Fyrirmyndarfélag veitir okkur ákveðið aðhald við að yfirfara skipulag, markmið og verkferla félagsins reglulega og hafa þá aðgengilega í handbók sem nýtist öllum starfsmönnum og sjálfboðaliðum félagsins. Þetta er mjög mikilvægt og veitir ákveðinn gæðastimpil sem skilar sér í betra og skipulagðara starfi" sagði Sigríður Inga Kristmannsdóttir íþróttafulltrúi ÍBV af þessu tilefni.