Handbolti - ÍR hafði betur

15.nóv.2008  18:45

Eyjamenn geta nagað sig í handarbökin eftir leik sinn gegn ÍR í dag en lokatölur urðu 28:38. Lokatölurnar gefa þó engan veginn rétta mynd af gangi mála enda gáfust Eyjamenn hreinlega upp á lokamínútunum, eitthvað sem lið ÍBV hafa ekki verið þekkt fyrir í gegnum tíðina. ÍR-ingar eru á toppi 1. deildar á meðan ÍBV er í neðri hlutanum en þó var enginn sjáanlegur getumunur á liðunum tveimur. Mistök heimamanna og á köflun ótrúlegt einbeitningaleysi gerði það hins vegar að verkum að gestirnir fóru burt með tvö stig í farteskinu.

Leikurinn var í járnum til að byrja með, liðin skiptust á að skora en fljótlega náðu ÍR-ingar undirtökunum. Þeir náðu mest fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik en Eyjamenn náðu að laga stöðuna í 15:17. Í raun hefðu heimamenn átt að gera mun betur en mistök á mistök ofan, bæði í vörn og sókn gerðu möguleika þeirra að engu. Kolbeinn Arnarson, markvörður ÍBV var hins vegar öflugur í fyrri hálfleik, varði 13 skot og hélt sínum mönnum lengi vel inni í leiknum.

Síðari hálfleikur var jafn framan af, liðin skiptust á að skora og munurinn hélst í þremur til fjórum mörkum. Svavar Vignisson, þjálfari ÍBV kom inn á í síðari hálfleik og hefði að ósekju mátt spila meira enda enn einn af öflugustu línumönnum landsins. En undir lokin datt botninn úr leik ÍBV, gestirnir gengu á lagið og skoruðu hvert markið á fætur öðru og unnu að lokum með tíu mörkum.

Það var í raun ekkert eitt atriði sem upp á vantaði í leik ÍBV í dag, heldur voru það mörg smáatriði sem urðu til þess að leikur liðsins komst aldrei á flug. Eyjamenn sýndu ágætis rispur en þess á milli sáust ótrúleg mistök og einbeitningaleysi. Sem dæmi komu aðeins tvö mörk úr hornunum þrátt fyrir fjölmörg góð færi og verður að nýta þau mun betur. Þá verða leikmenn ÍBV að gera sér grein fyrir því að þeir leika í næst efstu deild og dómgæslan verður alltaf eftir því. Bestu dómarar landsins koma ekki til að dæma í 1. deild í Vestmannaeyjum þannig að tuð í dómurum skilar engu, sama hversu góðir eða lélegir dómararnir eru.

Það er hins vegar á nógu að byggja og algjör óþarfi að vera með einhverja minnimáttarkennd gagnvart öðrum liðum í deildinni enda á ÍBV að geta mun meira en liðið sýndi í dag.

Mörk ÍBV: Sigurður Bragason 13, Sindri Haraldsson 7, Vignir Stefánsson 3, Davíð Óskarsson 1, Leifur Jóhannesson 1, Sindri Ólafsson 1, Svavar Vignisson 1, Davíð Óskarsson 1.
Varin skot: Kolbeinn Arnarson 16.

Eyjafréttir sögðu frá.