ÍBV búningar til Afríku

07.nóv.2018  14:29

Þróttur Reykjavík stóð fyrir söfnun á notuðum knattspyrnubúnaði á Rey Cup sl. sumar. Búnaðurinn var svo sendur til skóla í Kenía, en fótboltalið skólans Verslo Football Academy stefnir að því að koma á Rey Cup næsta sumar.

Foreldrar iðkenda hjá ÍBV létu ekki sitt eftir liggja og gáfu búninga í söfnunina, Þróttarar voru að pósta meðfylgjandi myndum á Twitter síðu sinni og Facebook síðu Rey Cup og er gaman að sjá gamla ÍBV búninga í nýju hlutverki.

En þess má geta að Abel heitinn Dharia fyrrum leikmaður ÍBV frá Úganda sagði að í fjölmiðlum þar í landi væri farið yfir leiki og úrslit ÍBV á sömu síðu og leiki ensku úrvalsdeildarinnar. Af þessu má álykta að ÍBV sé vel þekkt þar í landi en félagið hefur verið með nokkra leikmenn þaðan á samning.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ÍBV gefur búninga til Afríku en Abel og bróðir hans Eric fóru í tvígang með búningasett frá félaginu til að gefa ungum knattspyrnuiðkendum í Úganda.